Fótbolti

Manchester United náði ekki að halda upp á met Giggs með sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Manchester United er ennþá á toppi síns riðils í Meistaradeildinni í fótbolta þrátt fyrir að hafa séð á eftir tveimur stigum í kvöld. Manchester United var yfir í 58 mínútur á móti Shakhtar Donetsk í Úkraínu en varð að sætta sig á endanum við 1-1 jafntefli.

Ryan Giggs setti nýtt leikjamet í Meistaradeildinni en liðsfélögum hans tókst ekki að halda upp á metið með sigri. Það leit reyndar lengi vel út fyrir að mark Danny Welbeck tryggði gestunum þrjú stig en heimamenn hættu ekki og tryggðu sér stig.

Danny Welbeck, líkar greinilega lífið vel í hvíta búningum eins og sést á frammistöðu hans í enska landsliðinu og þar var hann sem kom United í 1-0 á 18. mínútu leiksins. Welbeck var þá á réttum stað á markteignum eftir að varnarmanni Shakhtar mistókst að hreinsa frá fyrirgjöf Marouane Fellaini af hægri kantinum.

Ryan Giggs kom inn á fyrir Marouane Fellaini í seinni hálfleiknum og bætti þar með leikjameti Rául í Meistaradeildinni. Giggs lék þarna 145. leik sinn í deild þeirra bestu.

Taison jafnaði metin á 76. mínútu þegar hann var fyrstur á boltann í teignum eftir misheppnaða hreinsun Nemanja Vidic. Liðin náðu ekki að bæta við mörkum og eru því bæði með fjögur stig eftir tvo leiki.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×