Fótbolti

Diego Costa vill frekar spila fyrir Spán en Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa.
Diego Costa. Mynd/NordicPhotos/Getty
Diego Costa hefur spilað frábærlega með Atlético Madrid í byrjun tímabilsins en þessi 25 ára framherji hefur skorað 13 mörk í 13 leikjum í öllum keppnum.

Frammistaða Diego Costa með Atlético Madrid hefur að sjálfsögðu vakið áhuga landsliðsþjálfara á kappanum og hann getur ennþá spilað fyrir tvö landslið.

Diego Costa er fæddur í Brasilíu ári 1988 en hefur spilað á Spáni frá árinu 2007. Diego Costa spilaði tvo vináttulandsleiki fyrir Brasilíumenn fyrr á þessu ári en vill nú spila fyrir Spán eftir að hann fékk spænskt ríkisfang í haust.

Þar sem að Diego Costa er bara búinn að spila vináttulandsleiki fyrir Brasilíu þá getur hann enn spilað fyrir Spán og nú lítur út fyrir að hann ætli að demba í harða samkeppni um framherjastöðu spænska landsliðsins fyrir titilvörnina á næstu Heimsmeistaramóti.

Diego Costa mun keppa um sætið við kappa eins og Fernando Llorente, Alvaro Negredo, Roberto Soldado, Fernando Torres og David Villa sem spilar með honum hjá Atlético.

Hjá brasilíska landsliðinu sem verður á heimavelli þegar HM fer fram næsta sumar hefði hann verið í samkeppni við menn eins og þá Fred, Jô, Leandro Damiao og Alexandre Pato.

Dæmi nú hver fyrir sig með hvoru landsliðinu er betra að spila en að flestra mati telst þetta nú vera algjört lúxusvandamál hjá Diego Costa.

Mynd/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×