Miðar ganga nú þegar kaupum og sölum á leik Íslands og Króatíu sem fram fer á Laugardalsvelli 15. nóvember næstkomandi. Á síðunni bland.is má sjá þó nokkrar auglýsingar þar sem óskað er eftir miðum en einnig hafa miðar verið boðnir til sölu.
Miðasalan á leikinn hófst rétt eftir klukkan fjögur í nótt á midi.is, allir miðarnir voru seldir fyrir klukkan átta í morgun. Nú rétt tveimur tímum síðar hefur fólk boðist til þess að borga vel fyrir miða á leikinn.
Um er að ræða stærsta knattspyrnuleik í sögu karlalandsliðs Íslands en liðið mætir Króötum tvívegis 15. og 19. nóvember í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í Brasilíu sem fram fer næsta sumar.
Íslenska landsliðið hefur aldrei átt eins góðan möguleika á því að komast á stórmót og núna og eru margir afar spenntir fyrir leiknum.
