Handbolti

Mosfellingar unnu toppslaginn í Mýrinni

Afturelding er nú eina liðið með fullt hús í 1. deild karla í handbolta eftir tveggja marka útisigur á Stjörnunni í kvöld, 28-26, í toppslag deildarinnar í Mýrinni.

Afturelding hefur nú unnið sex fyrstu leiki sína en Stjarnan var með fullt hús eftir fyrstu fjóra leiki sína.

Valgarður Gíslason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í Mýrinni í kvöld og má sjá myndir hans hér fyrir ofan.

Það var þó ekki eintóm gleði fyrir Aftureldingu því Örn Ingi Bjarkason, langmarkahæsti leikmaður liðsins í vetur, meiddist í fyrri hálfleiknum. Hann kom þó aftur inn á völlinn í lok leiksins og meiðslin því ekki eins alvarleg og leit út fyrir.

Böðvar Páll Ásgeirsson var markahæstur hjá Aftureldingu með sex mörk en þeir Pétur Júníusson, Jóhann Jóhannsson og Örn Ingi Bjarkason skoruðu allir fimm mörk.

Einar Hólmgeirsson fékk rautt spjald fyrir að skjóta í höfuð Davíðs Svanssonar, markvarðar Aftureldingar. Egill Magnússon var markahæstur hjá Stjörnunni með sjö mörk.

Mynd/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×