Veiði

Veiddi betur meðan bókin súrraði í kolli hans

Jakob Bjarnar skrifar
Stefán Jón með fallegan urriða. "Þessi mynd var sama dag og hitamet var slegið í Veiðivötnum í júlí í sumar, 25 stig, sól, logn og "ómögulegt veiðiveður“. Þrjá af mínum stærstu urriðum á ferllinum hef ég veitt í sól og logni sem á að vera nánast ómögulegt, en maður á aldrei að gefast upp! 8 pund.
Stefán Jón með fallegan urriða. "Þessi mynd var sama dag og hitamet var slegið í Veiðivötnum í júlí í sumar, 25 stig, sól, logn og "ómögulegt veiðiveður“. Þrjá af mínum stærstu urriðum á ferllinum hef ég veitt í sól og logni sem á að vera nánast ómögulegt, en maður á aldrei að gefast upp! 8 pund. mynd/Lárus Karl
Stefán Jón Hafstein bætist nú í hóp snjallra penna og veiðimanna og sendir frá sér veiðibók þetta árið en hún er ætluð meðaljóninum í fluguveiðinni.

„Þetta er skrifað beint fyrir „meðaljóninn“ en ekki snillingana eða til að sýnast fyrir þeim,“ segir Stefán Jón Hafstein veiðimaður með meiru en hann hefur nú sent frá sér glæsilega bók sem fjallar um fluguveiðar. Bókin heitir Fluguveiðiráð en ljósmyndarinn Láru Karl Ingason, sem hefur lengi myndað veiðiflugur og veiðistaði, leggur til myndirnar. Í bókinni er farið yfir mörg grundvallaratriði í fluguveiði til að hjálpa þeim sem vilja bæta sig og auka ánægju af veiðinni.

Markviss veiði

En, hvenær flaug sú fluga í höfuð Stefáns Jóns að rétt væri að hann gæfir út bók um þetta hugðarefni sitt?

„Þessi hugmynd er margra ára gömul og hafði vinnuheitið Fluguveiðar fyrir alla. En í vor kom Lárus Karl Ingason ljósmyndari og gamall samstarfsmaður með tillögu að frekara samstarfi svo við tókum sumarið í að gera þetta,“ segir Stefán Jón. Hugmyndin var alveg skýr í kollli hans.

„Svo er ég svo heppinn að konan mín er grafískur hönnuður svo hún kom þessu upp ásamt myndum Lárusar. Ragnar Hólm var svo fjórða hjólið undir vagninum með yfirelstur og hjálp svo þetta var gott teymi fluguveiðifólks sem hafði verulega gaman af því að setja þetta saman. Ég hef verið svo heppinn að fá að veiða með mörgum snillingum og lært af, en líka fengið að segja til fólki gegnum tíðina og veit því hveð vefst fyrir því á hinum ýmsu stigum fluguveiðanna. Kúnstin er oft að segja hæfilega mikið, efla sjálfstrauistið og sköpunargleðina án þess að flækja hlutina um of. Markviss veiði er kjörorð bókarinnar. Ég er ekki frá því að ég hafi veitt betur sjálfur í sumar þegar bókin súrraði í kollinum á mér!“

Fyrir menn sem vilja ná í fisk

Pálmi Gunnarsson sendi nýverið frá sér bráðskemmtilega bók sem er einskonar þroskasaga fluguveiðimanns, öðrum þræði.

Ertu að verða eins og Pálmi, sem japanskur tesiðameistari sem þarf ekki einu sinni te í bolla sinn, heldur snýst þetta meira og minna um seremóníurnar, farinn að sverfa oddinn af önglinum og svona?

„Nei! Þetta er alveg á hinum endanum: Verkleg heilræði um að veiða fisk! Ég hef reyndar oft veitt með Pálma sem er frábær veiðimaður og hann kenndi mér margt. En þessi bók er alveg út í handbókina um hvernig maður sækir fiskinn. Hver maður býr sér svo til sína eigin rómantík.“

Hversu lengi hefur þú fengist við fluguveiðar?

„Það eru að verða 25 ár eða svo. Jakob V. Hafstein föðurbróðir minn tók mig reyndar með sem peyja í veiði og kom bakteríunni alveg inn. Eftir skólaárin fór ég svo af alvöru í þetta undir styrkri stjórn Kolbeins grímssonar og fleiri góðra manna sem tengjast Ármönnum. Stofnaði svo flugur.is árið 2000 og gaf út „rómantísku“ veiðibókina Fluguveiðisögur í kringum það leyti, en þessi hefur fengið að gerjast kringum veiðitúra með fólki sem hefur sótt til mín ráð. Mér finnst gaman að miðla milli þeirra góðu veiðiimanna sem ég hef kynnst og hinna sem eru styttra komnir. Þessi er á þeim nótum“

Stefán Jón á mikla uppáhaldsflugu sem er frá miklum meistara í Sviss og heitir Marc Petitjean og hún heitir einfaldlega MP 52mynd/Lárus Karl
Það verður náttúrlega ekki hjá því komist, í þessu samhengi, að spyrja um uppáhalds fluguna?

„Já, ég á mikla uppáhaldsflugu sem er frá miklum meistara í Sviss og heitir Marc Petitjean, ég veiddi með honum hér heima og hún heitir einfaldlega MP 52, það er flott mynd af henni í bókinni í upphafi þurrflugnakaflans. Svo er skæð straumfluga sem ég hnýti sjálfur og er ótrúlega ljót og einföld, en þegar maður hefur sótt hana djúpt í kokið á stórum urriðum nokkrum sinnum kemst hún á stall: Shaggy dog heitir hún og er sýnd á flugur.is.“

Hnýtir margar flugur árlega

Margir sem föndra við fluguveiðina óttast fluguhnýtingar, hreinlega. Sá sem þetta skrifar hugsar með hrolli til viðtals sem hann sá eitt sinn við Sigga Sveins handboltakappa, þegar hann sagði frá því þegar strákarnir okkar fóru út á lífið til að skoða sig um en á meðan var Guðmundur Guðmundsson, sem síðar gat sér gott orð sem þjálfari, uppi á hótelherbergi að hnýta flugur. 

Er þetta, að hnýta sjálfur, ekki til marks um að þessi della sé komin á alvarlegt stig?

„Nei, reyndar ekki. Þá er maður rétt að byrja á leið sem endar aldrei! Kolbeinn heitinn kenndi mér að hnýta eins og svo mörgum öðrum, reyndar fór ég með veiðifélagann og eiginkonuna á námskeið svo hún gæti lært að hnýta fyrir mig því ég hafði ekki trú á fínhreyfingum mínum. En áhuginn sigrar öll vandamál og nú hnýti ég margar flugur árlega, en hef líka gaman af því að sanka að mér flugum frá hinum og þessum snillingum sem ég er í góðu sambandi við.“

Og, hvar veiðir Stefán Jón helst? Hverjir eru eftirlætis staðirnir?

„Ég elska Laxá í Þingeyjarsýslu frá upphafi til ósa, hún er ótrúlegt náttúruundur og ég hef veitt á velflestum svæðum árinnar, lax og urriða. Veiðivötn eru mér einnig mjög kær þótt ég fái nú aldrei marga fiska þar hin síðari ár. Svo hef ég veitt vel á annan áratug á silungasvæði Hofsár og þar upplifi ég árlega auðmýkingna sem sjóbleikjan býður uppá, og stöku sinnum næ ég að gabba hana og verð ákaflega hróðugur, ekki síst ef hún kemur og tekur MP52 í yfirborðinu.






×