Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldavanda heimilanna, segir að hópurinn sé nú að leggja lokahönd á tillögur varðandi niðurfærslu skulda. Hópurinn mun skila tillögum til ríkisstjórnarinnar í næstu viku.
Hópurinn var skipaður í ágústmánuði en auk Sigurðar sitja í honum Arnar Bjarnason, hagfræðingur, Einar Hugi Bjarnason, hrl, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, hdl, Lilja Alfreðsdóttir, alþjóðhagfræðingur, Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneytinu og Sigurður Guðmundsson, skipulagsfræðingur í fjármálaráðuneytinu.
Sigurður Hannesson segir að hópurinn hafi fengið til sín fjölmarga gesti þar á meðal fulltrúa frá fjármálafyrirtækjum og Seðlabanka Íslands. „Vinna er á áætlun. Við munum skila tillögum í næstu viku,“ sagði Sigurður í samtali við fréttastofu.
Nú þegar er hafin vinna innan forsætisráðuneytisins við gerð frumvarpa í tengslum við skuldaniðurfærsluna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur ekki útilokað að hægt verði að klára þinglega meðferð málsins fyrir áramót.
