Fótbolti

Rúrik spilaði meiddur gegn Madrídingum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúrik í baráttu við Gareth Bale í leiknum í gær.
Rúrik í baráttu við Gareth Bale í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Rúrik Gíslason lét meiðsli í kálfa ekki hindra sig og spilaði allan leikinn með FCK gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gær.

„Ég fæ vonandi prik fyrir það að spila þrátt fyrir meiðslin,“ sagði Rúrik í samtali við danska fjölmiðla eftir leikinn í gær en fram kom í frétt bold.dk um málið að hann hafi átt erfitt með gang um helgina.

„En það er kannski ágætt að það sé ekki leikur eftir þrjá daga,“ bætti hann við en FCK er nú komið í vetrarfrí í Danmörku, auk þess sem að þetta var síðasti Evrópuleikur liðsins í vetur.

Rúrik var hrósað fyrir frammistöðuna í gær þrátt fyrir að Real Madrid hafi unnið, 2-0. Hann var einn fárra leikmanna FCK sem lét varnarmenn Madrídinga vinna fyrir kaupinu sínu.

„Ég fékk ekki sérstök tilmæli um að spila á ákveðinn hátt en svona vil ég spila fótbolta. Ég vil fara framhjá andstæðingum mínum eins oft og ég get í leiknum og það gekk ágætlega að þessu sinni,“ sagði Rúrik.

„En Real Madrid er með virkilega gott lið og fer ef til vill alla leið í Meistaradeildinni í ár. Þetta er besta liðið í okkar riðli enda kosta varamenn liðsins meira en allt FCK-liðið til samans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×