Rodrigo Palacio tryggði Inter sætan sigur í uppgjöri Mílanó-liðanna í ítalska boltanum í kvöld.
Markið kom aðeins fjórum mínútum fyrir leikslok. Nokkuð jafnræði hafði verið í leiknum og stefndi allt í markalaust jafntefli er Palacio skoraði.
Mótlætið fór í taugarnar á leikmönnum Milan. Balotelli fékk gult fyrir tuð og Sulley Muntari var svo rekinn af velli fyrir að missa stjórn á skapi sínu og hrinda andstæðingi.
Inter komst með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar en AC Milan er ekki að gera góða hluti í þrettánda sætinu.
