Íslenska landsliðið mætir Rússum í kvöld í vináttulandsleik í Marbella á Spáni. Leikurinn hefst klukkan 19.30 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson eru tvær af stærstu stjörnum íslenska fótboltalandsliðsins í dag og þeir eru báðir með liðinu á Spáni.
Íslenska landsliðið lék tíu landsleiki undir stjórn Lars Lagerbäck á síðasta ári en þessir tveir stjörnuleikmenn íslenska liðsins voru aðeins saman inn á vellinum í samtals 193 mínútur, eða bara 21 prósent mínútna sem voru í boði.
Það er ekki hægt að kvarta yfir hvernig gekk í þessum þremur leikjum með Gylfa og Kolbein inni á vellinum. Íslenska landsliðið vann þessar 193 mínútur 5-2, þar á meðal vannst fyrri hálfleikurinn á móti Frökkum 2-0. Markatala íslenska liðsins hinar 707 mínútur ársins var 9-13.
Lars Lagerbäck talaði um þá báða á blaðamannafundi fyrir leikinn. „Gylfi Sigurðsson hefur ekki verið að spila eins mikið og hann myndi vilja hjá Tottenham en ég hef trú á því að það muni breytast. Svo er það Kolbeinn Sigþórsson, sem hefur skorað 8 mörk í 11 landsleikjum fyrir Ísland, tölfræði sem myndi sóma sér vel hjá hvaða stórþjóð sem er," sagði Lagerbäck.
Kolbeinn og Gylfi saman með íslenska landsliðinu árið 2012:27. maí 2012 Ísland-Frakkland 2-3
45 mínútur - Ísland vann þær 2-0
Kolbeinn 1 mark
Gylfi 1 stoðsending
30. maí 2012 Ísland-Svíþjóð 2-3
45 mínútur - Ísland tapaði þeim 1-2
Kolbeinn 1 mark
15. ágúst 2012 Ísland-Færeyjar 2-0
90 mínútur - Ísland vann þær 2-0
Kolbeinn 2 mörk
Samanlagt - Ísland með Kolbein og Gylfa
193 mínútur - Ísland vann þær 5-2
Kolbeinn 4 mörk
Gylfi 1 stoðsending
Gylfi og Kolbeinn aðeins saman á vellinum í 193 mínútur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
