Tveir áhrifamiklir öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum kynntu fyrir helgi lagafrumvarp sem tryggja á að hvergi verði hægt að kaupa skotvopn í landinu án þess að fortíð kaupandans sé könnuð fyrir kaupin.
Þingmennirnir sem standa að frumvarpinu, Joe Manchin og Patrick Toomey, eru hvor í sínum flokknum en líklegt er talið að frumvarpið fái brautargengi í öldungadeildinni þar sem demókratar eru í meirihluta.
Erfiðara kann hins vegar að reynast að fá frumvarpið samþykkt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings þar sem repúblikanar eru í meirihluta. Repúblikanar eru flestir á móti takmörkunum á skotvopnaeign og það sama gildir um hluta þingmanna demókrata.
Ríkisstjórn demókratans Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur lagt þunga áherslu á það síðustu mánuði að gripið verði til úrræða til að minnka skotvopnaofbeldi í Bandaríkjunum. Áhersla var lögð á málið eftir fjöldamorð í grunnskóla í Newtown í Connecticut í desember síðastliðnum.
Hefur Obama meðal annars lagt á það áherslu að gerðar verði breytingar á skotvopnalöggjöfinni vestanhafs í þá átt að erfiðara verði að eignast byssu.