

Háskóli Íslands: Talibanar í fílabeinsturni?
Vissulega ber forráðamönnum háskólans að standa vörð um heiður hans. Spurningin er: Hvort verður það betur gert með því að halda í heiðri grundvallarreglur og mannréttindi? Eða með því að láta öfgafullan minnihluta kúga sig til að fórna grundvallarsjónarmiðum – í nafni friðarins? Hvar endar það? Málavextir eru í stórum dráttum sem hér segir:
Að beiðni Háskólans í Vilníus í Litháen tók ég að mér að kenna námskeið á vormisseri 2013 um stöðu smáþjóða í alþjóðakerfinu. Boðið var upp á samanburðargreiningu á því hvernig smáþjóðum hefði farnast í yfirstandandi alþjóðlegri fjármálakreppu, innan og utan bandalaga. Námskeiðið var fjölsótt. Það stóð öllum opið og vakti umfjöllun í fjölmiðlum. Þetta námskeið var undirbúið í samstarfi við Háskóla Íslands. Prófessor við háskólann lagði fræðilegan grunn að námskeiðinu og fylgdi því úr hlaði. Ég gegnumlýsti sjö dæmi um ofangreind efni og tók þar m.a. mið af eigin pólitískri reynslu. Kenningin var studd reynslurökum.
Námskeiðið í Vilníus þótti takast með þeim hætti að ég var spurður hvort ég vildi endurtaka það að ári. Í framhaldinu var þess óskað f.h. Háskóla Íslands að ég kenndi sambærilegt námskeið við HÍ nú á haustönn. Ég var tregur til í fyrstu, þar sem tímasetningin kallaði á breyttar ferðaáætlanir, en féllst þó á þessa beiðni að lokum.
Blygðunarkennd
Nú hefur mér borist orðsending um að háskólinn hafi afturkallað þessa beiðni. Af samtölum við (fyrrverandi) samstarfsmenn við HÍ má ráða, að skýringarnar séu þessar: Kennarar við HÍ í einhverju sem kallast „kynjafræði“ munu hafa sett fram skriflega kröfu um atvinnubann – „Berufsverbot“, eins og þetta hét í Þýskalandi nazismans – á undirritaðan. Þetta mun hafa verið stutt ákæruskjali um meintar ávirðingar mínar, samkvæmt glansritinu „Nýju lífi“ og DV.
Hverjar eru þessar sakargiftir? Árið 2005 var lögð fram kæra til lögreglu á hendur mér um meinta kynferðislega áreitni. Kærunni var vísað frá sem tilefnislausri. Kæran var tekin upp aftur við embætti saksóknara. Í það skiptið snerist hún um að ég hefði „sært blygðunarkennd“ viðtakanda bréfs, sem fylgdi bókargjöf eftir Nóbelsverðlaunahafa. Þessari kæru var líka vísað frá, þar sem ekki væri tilefni til sakfellingar.
Málið hefur sumsé haft sinn gang í réttarkerfinu. Þar með var því lokið samkvæmt viðteknum starfsreglum réttarríkisins. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu reyndu sumir fjölmiðlar að dusta af því rykið snemma árs 2012. Í þeirri umfjöllun var málið afflutt á þann veg að það hefði snúist um kynferðislega áreitni gagnvart stúlku undir lögaldri. Það var og er staðleysustafir (sjá málsgögn á heimasíðu minni www.jbh.is). Þótt maðurinn væri að vísu saklaus samkvæmt niðurstöðum ákæruvaldsins – sem treysti sér ekki til málshöfðunar – skyldi hann samt dæmdur sekur í fjölmiðlum. Á þessu munu kynjafræðingar háskólans byggja málflutning sinn.
En hvernig hefur hinn ákærði brugðist við? Hefur hann forherst og neitað allri sök? Nei – því fer fjarri. Hann hefur viðurkennt dómgreindarbrest og beðist fyrirgefningar og reynt sáttaumleitanir oftar en tölu verði á komið, bæði í einkaerindum og opinberlega. En eitt er að biðjast fyrirgefningar, annað að verða við henni. Mikilvægi fyrirgefningarinnar í boðskap fjallræðumannsins er vonandi enn kennd í guðfræðideildinni, þótt hún hafi ekki náð landi þarna í kynjafræðinni. Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.
Trúverðugleiki?
Hvað segir afhjúpun þessa máls okkur um það andlega ástand sem ríkir innan veggja Háskóla Íslands? Háskóli Íslands leitaði eftir starfskröftum mínum – væntanlega á faglegum forsendum – haustið 2009. Það var tveimur árum eftir að réttarkerfið hafði vísað frá kærumálum, þar sem ekki væri tilefni til sakfellingar. Háskólinn virtist ekki óttast það þá að þar með væri „þolendavænu umhverfi“ stúdenta stefnt í voða. Hvað hefur breyst? Fjölmiðlafár?
Háskólinn efndi til samstarfs við mig um undirbúning og framkvæmd námskeiðshalds við Háskólann í Vilníus á sl. vori. Að fenginni reynslu falaðist háskólinn eftir mér sem kennara í námskeiði fyrir innlenda og erlenda stúdenta á þessu hausti. Undirbúningur hefur verið í fullum gangi þar til nú, að þessi samstarfsbeiðni er afturkölluð. Hvers vegna? Opinberlega hefur háskólanum, enn sem komið er, láðst að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Í einkasamtölum er mér sagt að forsvarsmenn háskólans óttist neikvæða umfjöllun um háskólann, einkum í fjölmiðlum. Þeir segjast einfaldlega hafa látið undan hótunum kynjafræðinga um linnulaus klögumál og jafnvel rof á starfsfriði ef þeir hefðu staðið við samstarfsbeiðni sína. Þeir hafi með öðrum orðum „beygt sig fyrir hótunum“. Sjálfir hafa þeir sagt, að þá „hrylli við“ því hugarástandi sem að baki býr; og að þeir viðurkenni að uppgjöfin skapi alvarlegt fordæmi varðandi starfshætti innan háskólans í framtíðinni. Þeir viðurkenna að hér sé verið að brjóta mannréttindi og grundvallarreglur réttarríkis. Hvað er þá orðið af „orðspori og trúverðugleika“ Háskóla Íslands?
Það hefði varla hvarflað að neinum að fetta fingur út í það, þótt forráðamenn háskólans hefðu neitað að ráða mann í sína þjónustu sem hefði verið sekur fundinn í réttarkerfinu fyrir alvarleg brot; t.d. með Hæstaréttardóm á bakinu fyrir þau brot sem þykja hvað alvarlegust í akademísku samfélagi – til dæmis ritstuld. Forráðamenn háskólans hljóta að vega og meta vandlega, hvenær „orðspor og trúverðugleiki“ æðstu menntastofnunar þjóðarinnar er að veði.
Hvað er að frétta af útvörðum réttarríkis og mannréttinda innan hins akademíska samfélags á Íslandi? Munu þeir nú láta til sín heyra af þessu tilefni? Eða eigum við að trúa því að þeir sem öðrum fremur eiga að standa vörð um mannréttindi í siðaðra manna samfélagi láti kúgast af hótunum ofstækisfulls sértrúarsafnaðar, sem gengur fram í nafni pólitísks rétttrúnaðar? Nýliðin saga segir okkur hvar sú vegferð endar. Var einhver að tala um talíbana? Fyrst svo er um hið græna tré, hvað þá um lággróður almenninganna?
Skoðun

Fullvalda utan sambandsríkja
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sagnaarfur Biblíunnar - Salómonsdómur, lög og ólög
Sigurvin Lárus Jónsson skrifar

Sjálfstæðir grunnskólar í hættu
Benedikt S. Benediktsson skrifar

Borgaralegur vígbúnaður
Dr. Bjarni Már Magnússon skrifar

Áskoranir og tækni í heilbrigðisþjónustu
Teitur Guðmundsson skrifar

Ósunginn óður til doktorsnema
Styrmir Hallsson skrifar

Frjáls umræða ekki lengur leyfð í USA – Skoðanafrelsi í hættu – Amerískt Gestapo í uppsiglingu?
Ole Anton Bieltvedt skrifar

Tannhjól í mulningsvél?
Arnar Þór Jónsson skrifar

Fækkum kennurum um 90%
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Uppsagnarbréf til góða fólksins
Daníel Freyr Jónsson skrifar

Kristni og íslam: Samfélag sem hvílir á skilningi
Skúli S. Ólafsson skrifar

Hugtakastríðið mikla
Sigmar Guðmundsson skrifar

Forsjárhyggja Sjálfstæðis- og Framsóknarfólks í Hafnarfirði í garð fólks með fötlun
Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Ekki er allt sem sýnist
Ólafur Helgi Marteinsson skrifar

Skóli án aðgreiningar: Hentar ýktasta mynd skólastefnunnar öllum börnum?
Jóna Sigríður Valbergsdóttir skrifar

Vilji til að rjúfa kyrrstöðu í húsnæðiskreppunni
Finnbjörn A. Hermannsson skrifar

Grænt ál frá Íslandi er mikilvægt fyrir sjálfstæða Evrópu
Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar

Þegar barn óttast önnur börn
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Falsfréttastjóri RÚV dýpkar holuna sína
Einar Steingrímsson skrifar

Ákall um breytingar
Gissur Freyr Gissurarson skrifar

Veit sem sagt Grímur betur?
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hvernig talar maður við tölvur og hafa vélar rökhugsun?
Henning Arnór Úlfarsson skrifar

Laun kvenna og karla
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar

Verkin sem ríkisstjórnin verður dæmd af
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Open Letter to new HÍ Rector re Disability Support
Hópur starfsfólks og nemenda við HÍ skrifar

Vanfjármögnun vísindanna
Magnús Hallsson,Styrmir Hallsson skrifar

Kárhóll og Kína: Þegar vísindi verða pólitísk tól
Davíð Michelsen skrifar

Mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur – Hvernig manneskjur viljum við vera?
Hulda Steingrímsdóttir skrifar

Ríkisstjórn gegn fjölskyldusameiningum?
Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Lýðræðið deyr í myrkrinu
Heiðar Örn Sigurfinnsson skrifar