Fótbolti

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hefst í kvöld

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta fer af stað í kvöld með fyrstu leikjum liðanna sem eru í riðlum A til D. Á morgun hefst síðan keppnin í hinum fjórum riðlunum.

Íslendingaliðið FC Kaupmannahöfn fær alvöru verkefni þegar liðið tekur á móti ítölsku meisturunum í Juventus á Parken. Ragnar Sigurðsson (til hægri) var rekinn út af um síðustu helgi en verður vonandi með í kvöld. Rúrik Gíslason hefur svo verið meiddur.

Manchester-liðin eru bæði í eldlínunni. United tekur á móti Bayer 04 Leverkusen í fyrsta leik stjórans Davids Moyes í Meistaradeildinni en City heimsækir tékkneska liðið Viktoria Plzen. Sami Hyypiä stýrir nú liði Leverkusen og fær verðugt verkefni á Old Trafford.

Það er pressa á Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóra Manchester City, enda hefur lítið gengið í Meistaradeildinni síðustu tímabil. City vann ekki leik í fyrra og komst hvorugt árið upp úr sínum riðli.

Ekkert nema sigur í Tékklandi í kvöld er því ásættanleg úrslit.

Pep Guardiola og lærisveinar hans í Bayern München hefja titilvörnina á móti rússneska liðinu CSKA Moskvu.

Allir leikirnir hefjast klukkan 18.45 en á undan verður Hjörtur Hjartarson með upphitun á Stöð 2 Sport. Manchester United - Leverkusen verður í beinni á Stöð 2 Sport en á sama tíma er hægt að horfa á FCK - Juventus á Stöð 2 Sport 3 og Bayern München - CSKA Moskva á Stöð 2 Sport 4.

Hjörtur verður síðan með Meistaramörkin eftir leikina þar sem öll mörk kvöldsins verða sýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×