Þrátt fyrir að karlalandsliði Íslands væri rétt vegleg líflína í Zagreb í gær átti liðið aldrei möguleika. Frá fyrstu mínútu voru okkar menn sem lömb í höndum Króata og trúin á verkefnið virtist minnka eftir því sem á leið.
Í 38 mínútur sóttu Króatar á okkar menn sem sátu aftarlega á vellinum, ráðvilltir en vörðust þó hetjulega. Eftir enn eina hornspyrnu heimamanna á 27. mínútu var Mario Mandzukic dauðafrír á fjærstöng og skoraði auðveldlega. Staðan var sanngjörn og Íslendingar á Maksimir-leikvanginum og víðar farnir að vonast eftir því að liðinu tækist að lifa af marki undir til hálfleiks.
Skyndilega birti til. Mandzukic sá rautt á 38. mínútu og allt í einu var von. Reyndar miklu meira en það. Hann var orðinn risastór.
Eftir fimmtán mínútna ráðagerð í leikhléi byrjaði síðari hálfleikur á versta mögulega hátt. Dario Srna skoraði og allt ætlaði um koll að keyra í Zagreb. Allt í einu þurftu strákarnir tvö mörk og í sannleika sagt voru Króatarnir líklegri til að bæta við marki, manni færri, en við að minnka muninn.
Vonbrigðin í leikslok voru mikil enda ljóst hve nálægt við vorum farseðlinum til Brasilíu. Jafnljóst var að við þyrftum á afburðaframmistöðu að halda gegn Króötum sem kunnu betur að meðhöndla spennuþrungnar aðstæður þar sem svo mikið var í húfi. Lykilmenn voru fjarri sínu besta, liðið saknaði Kolbeins Sigþórssonar sárlega og í raun vorum við heppnir að ekki fór verr. Þegar á hólminn var komið voru okkar menn ekki klárir.
Nánast enginn leikmaður Íslands hafði spilað jafnmikilvægan leik á ferlinum en nú er slíkur leikur kominn í reynslubankann. Þótt frammistaðan í gærkvöldi væri léleg hefur leikur Íslands í keppninni verið til fyrirmyndar. Handan við hornið er Evrópumótið í Frakklandi 2016 og ljóst að þangað eiga okkar menn, reynslunni ríkari, góðan möguleika á að komast.
Þótt Brasilíuævintýrið sé úti er ævintýri karlalandsliðsins rétt að byrja.

