Þriðja degi aðalmeðferðar málsins lauk í gær en þar gaf skýrslu vitni sem bar fyrir sig minnisleysi, þrátt fyrir að hafa gefið nokkuð nákvæma skýrslu um atburði hjá lögreglu við rannsókn málsins. Annað vitni hafði gert slíkt hið sama í sínum vitnisburði og bæði vitnin sögðust hafa verið undir áhrifum vímuefna þegar þau gáfu skýrslu hjá lögreglu. Þá neituðu þeir sakborningar sem ekki eru taldir höfuðpaurar í málinu að tjá sig nokkuð um þátt annarra en sinn eigin í árásunum og mannránunum.
„Ástæða þess að óskað var eftir því að vitni fengju að gefa sínar skýrslur án þess að sakborningar væru viðstaddir er ótti þeirra við þessa menn og hefndaraðgerðir,“ sagði Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í samtali við Fréttablaðið.

Eitt fórnarlambið greindi frá því að skilaboðum hefði verið komið til hans um að „halda kjafti“.
Vantar úrræði til verndar vitnum
Staðan í íslensku réttarkerfi er með þeim hætti að óttist vitni hefndaraðgerðir ofbeldismanna standa lögregluyfirvöld úrræðalaus gagnvart slíkum hótunum.
„Það vantar öll úrræði til þess að hægt sé að hjálpa þessu fólki. Til dæmis einhvers konar öryggishnapp sem fólk gæti fengið eða að lögregla hafi úrræði til að tryggja þessu fólki einhverja aðstoð,“ segir Helgi Magnús.