Körfubolti

Hildur með þrefalda tvennu þegar Snæfell komst í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir.
Hildur Sigurðardóttir. vísir/Valli
Snæfellskonur eru komnar í undanúrslit Powerade-bikars kvenna í körfubolta eftir fjórtán stiga sigur á Val, 86-72, í Vodfone-höllinni í gær. KR hafði áður komist í undanúrslitin en hinir tveir leikir átta liða úrslitanna fara fram í kvöld og á morgun.

Snæfell var tíu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 27-17, og með ellefu stiga forskot í hálfleik, 46-35. Valskonur minnkuðu muninn niður í eitt stig í tvígang um miðjan þriðja leikhluta en þá gaf Snæfellsliðið aftur í og tryggði sér sigur.

Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði Snæfells, var með þrefalda tvennu í leiknum, 13 stig, 11 fráköst og 12 stoðsendingar og það þrátt fyrir að fá sína fjórðu villu þegar enn voru fimm mínútur eftir af fyrri hálfleik.

Það voru fleiri að spila vel hjá Snæfellsliðinu, Chynna Unique Brown var með 26 stig og 10 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir var með 17 stig og 10 fráköst og hin unga Eva Margrét Kristjánsdóttir átti frábæra innkomu af bekknum en hún var með 16 stig, 8 fráköst og 3 varin skot á 25 mínútum.

Anna Alys Martin var atkvæðamest hjá Val með 24 stig, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta og Hallveig Jónsdóttir (20 stig) átti einnig mjög góðan leik.

Snæfellskonur eru þar með komnar í undanúrslitin þriðja árið í röð undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar en kvennalið Snæfells hefur aldrei orðið bikarmeistari. Snæfellsliðið hefur verið á mikilli sigurgöngu að undanförnu en þetta var áttundi sigur liðsins í röð í öllum keppnum.



Valur-Snæfell 72-86 (17-27, 18-19, 23-17, 14-23)

Valur: Anna Alys Martin 24/5 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Hallveig Jónsdóttir 20, Kristrún Sigurjónsdóttir 10/5 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 8/8 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 6/6 fráköst/3 varin skot, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 2, Rut Herner Konráðsdóttir 2. 

Snæfell: Chynna Unique Brown 26/10 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 17/10 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 16/8 fráköst/3 varin skot, Hildur Sigurðardóttir 13/11 fráköst/12 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 7/6 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 5/7 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2.

Ingi Þór Steinþórsson er að gera góða hluti með Snæfellsliðið sem hefur unnið átta leiki í röð í öllum keppnum. Mynd/Valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×