Körfubolti

Tíundi sigur Snæfells í röð | Úrslit kvöldsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir, leikmaður Snæfells.
Hildur Sigurðardóttir, leikmaður Snæfells. Vísir/Daníel
Topplið Snæfells hélt sigurgöngu sinni áfram í Domino's-deild kvenna í dag en Haukar höfðu betur gegn Keflavík í baráttunni um annað sætið.

Snæfell vann Grindavík á útivelli, 93-74, þar sem mestu munaði um góðan þriðja leikhluta. Chynna Brown skoraði 24 stig og tók fimmtán fráköst en Hildur Sigurðardóttir kom næst með 21 stig auk þess sem hún tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Haukar unnu Keflvíkinga í spennandi leik, 61-60, eftir að hafa verið þremur stigum yfir í hálfleik. Keflavík var þremur stigum undir þegar lítið var eftir en Diamber Johnson setti niður tveggja stiga körfu í blálokin sem dugði skammt.

Johnson skoraði sautján stig fyrir Keflavík en Lele Hardy var stigahæst hjá Haukum með nítján stig auk þes sem hún tók sextán fráköst.

Að síðustu vann Hamar öruggan sigur á Njarðvík, 84-54.

Snæfell hefur nú unnið tíu leiki í röð í deildinni og er langefst með 38 stig. Haukar koma næstir með 30 stig og eru nú með fjögurra stiga forystu á Keflvíkinga.

Hamar er í sjötta sæti með átján stig, Grindavík er með fjórtán og Njarðvík með tíu stig í neðsta sæti.


Tengdar fréttir

Valur varði fjórða sætið

Valur vann stórsigur á KR, 71-48, þrátt fyrir að hafa verið þremur stigum undir að loknum fyrri hálfleik liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×