Fótbolti

Mistök Aranzubia reyndust dýrkeypt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aranzubia gerði slæm mistök í marki Atletico Madrid í kvöld.
Aranzubia gerði slæm mistök í marki Atletico Madrid í kvöld. Vísir/Getty
Atletico Madrid tapaði afar dýrmætum stigum í toppbaráttu spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld en liðið tapaði þá fyrir Almeria, 2-0. Úrslitin þýða að Real Madrid er komið á topp deildarinnar.

Staðan var lengi vel markalaus en á 80. mínútu kom að þætti Daniel Aranzubia, markverði Atletico Madrid.

Almeria fékk hornspyrna sem var tekin stutt. Verza tók við boltanum og lyfti honum á fjærstöng. Aranzubia missti boltann hins vegar yfir sig og í markið.

Aðeins fjórum mínútum síðar fékk Almeria vítaspyrnu. Aranzubia hékk of lengi á boltanum og lét Jonathan, leikmann Almeria, stela honum af sér á stórhættulegum stað.

Aranzubia reyndi að bjarga málunum en var dæmdur brotlegur. Vítaspyrna var dæmd og markverðinum sýnt rauða spjaldið.

Verza skoraði úr vítaspyrnunni og tryggði heimaliðinu 2-0 sigur. Liðið komst með sigrinum í 25 stig og situr í þrettánda sæti deildarinnar.

Atletico missti hins vegar toppsæti deildarinnar til granna sinna í Real Madrid sem er nú ofar á markatölu. Barcelona getur komist á toppinn á morgun með sigri á Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×