Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði hörmungaratburði næturinnar í Úkraínu að umtalsefni sínu í ræðu á Alþingi í dag. Að minnsta kosti 26 féllu í átökum á milli mótmælenda og lögreglu í Kænugarði og talið er að yfir þúsund manns hafi særst.
„Virðulegi forseti. Ég ætla að fara aðeins út fyrir nærumhverfið og gera að umtalsefni þær hörmungar sem nú ríða yfir úkraínsku þjóðina,“ sagði Ragnheiður í ræðu sinni. Hún beindi þeim tilmælum til utanríkismálanefndar að málið yrði skoðað.
„Við erum í stjórnamálasambandi við Úkraínu og ég held það hljóti að vera hlutverk okkar sem lýðræðisþjóð að velta fyrir okkur því ástandi sem þar ríkir, sem og í þeim löndum sem við erum í stjórnmálasambandi við. Þetta er hörmulegt, þetta er hörmulegt.“
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tók í sama streng og sagði ástæðu fyrir Alþingi að huga að málefnum Úkraínu.
„Ég veit til þess að starfsbræður okkar í Svíþjóð eru að huga að því að álykta um þau efni, og það er full ástæða fyrir okkur hér á Alþingi að huga að því einnig,“ sagði Helgi. „Það er einfaldlega verið að drepa saklaust fólk í einni af höfuðborgum Evrópu, og sjálfsagt að við látum í okkur heyra þar um.“

