Talið er að Íslendingar hafi átt um þúsund trillur þegar mest var. Þær voru hins vegar hægfara og véku hratt þegar hraðfiskibátar úr trefjaplasti tóku að birtast upp úr 1980.
Í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, verður Seyðisfjörður heimsóttur og fjallað um hvernig gömlu timburhúsin þar í bæ eru gerð upp og nýtt til atvinnusköpunar. En rétt eins og með öll litríku húsin í bænum hafa Seyðfirðingar líka áhuga á að varðveita gamla trébáta.
Hjónin Ólafur Sveinbjörnsson og Ingibjörg Stefánsdóttir segja í þættinum frá bátnum sem þau keyptu frá Vopnafirði á síðasta ári í því skyni að gera upp. Hann var upphaflega smíðaður á Borgarfirði eystra fyrir um 40 árum úr eik og furu. Áhugann á gömlum bátum hefur Ólafur frá föður sínum sem var útgerðarmaður í Neskaupstað og gerði út eikarbáta. Nú á að taka þennan í gegn.

„Þetta er held ég að verða vakning að vernda þessa gömlu báta,“ segir Ólafur. „Þeir fóru á brennurnar hérna áður,“ segir Ingibjörg. Þau segjast hafa þannig horft á eftir mörgum fallegum bátum sem hafi verið mikil synd.
Þau segjast samt ekki ætla að hafa bátinn sem safngrip uppi á landi. Honum eigi að sjálfsögðu að sigla. Hann verði nýttur sem sportbátur fyrir fjölskylduna til að sigla um Seyðisfjörð og jafnvel yfir í næstu firði á góðviðrisdögum á sumrin.