Körfubolti

Ingi Þór: Tapið á laugardaginn gerir okkur ennþá hungraðari

Óskar Ófeigur Jónsson í Fjárhúsinu í Stykkishólmi skrifar
Snæfellskonur fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld.
Snæfellskonur fagna deildarmeistaratitlinum í kvöld. Vísir/ÓskarÓ
Snæfellskonur tóku við deildarmeistaratitlinum í Stykkishólmi í kvöld eftir 27 stiga sigur á Njarðvík, 87-60, en Snæfellsliðið var búið að tryggja sér sigurinn í deildinni fyrir leikinn. Þjálfari liðsins, Ingi Þór Steinþórsson, er á sínu fjórða tímabili með kvennaliðið og hefur byggt liðið markvisst upp allan þennan tíma.

„Þeir sem vinna þennan titil tala alltaf um hvað þetta sér stór titill og þetta er náttúrulega stærsti titilinn. Í knattspyrnu snýst allt um að ná þessum titli og þetta er erfiðasti titilinn. Við erum mjög stolt að hafa landað þessum titli því við áttum ekki von á þessu fyrir tímabilið. Við vorum ekki viss hvernig liðið yrði mannað í vetur og erum því rosalega stolt af því hvernig við erum búin að koma liðinu saman og hvert við erum búin að komast," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari nýkrýndra deildarmeistara Snæfells.

„Mig dreymdi svo sem aldrei um deildarmeistaratitilinn því úrslitakeppnin var alltaf takmarkið. Við náðum því og svo komumst við alltaf aðeins lengra og aðeins lengra. Núna erum við búin að ná deildarmeistaratitli og erum lið númer eitt. Hin liðin þurfa núna að fara í gegnum okkur á heimavellinum okkar til að vinna og það er gríðarlega sterkt fyrir okkur," sagði Ingi Þór.

Snæfell á enn eftir þrjá deildarleiki og hvað breytir það fyrir liðið að ná því að klára þetta svona snemma.

„Í dag vorum við ekki með fullt lið og við verðum ekki með fullt lið í næstu leikjum. Þetta gerir það að verkum að við getum undirbúið okkur aðeins öðruvísi undir úrslitakeppnina en önnur lið. Þetta er mjög gott fyrir sjálfstraustið svo lengi sem við slökum ekki á, verðum eitthvað værukær og förum að bíða eftir einhverju. Við sýndum það í kvöld að við vorum ekki að bíða eftir neinu heldur spiluðum þennan leik af fullum krafti," sagði Ingi Þór.

Snæfellsliðið tapaði sínum fyrsta leik í langan tíma þegar liðið tapaði fyrir Haukum í bikaúrslitaleiknum í Laugardalshöllinni á laugardaginn.

„Ég er vissulega skúffaður yfir því að hafa ekki náð betri leik á laugardaginn en Haukarnir spiluðu þann leik bara vel og eru vel að þeim sigri komnar. Við lentum þar í ströggli og náðum ekki að vinna okkur út úr því. Við erum mjög stolt af því sem við erum búin að gera og það langar öllum að komast í Höllina. Tapið á laugardaginn gerir okkur ennþá hungraðari í Íslandsmeistaratitilinn. Það keyrir mig áfram og ég veit að það keyrir stelpurnar áfram," sagði Ingi Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×