Ummæli Gunnars Braga bárust þegar Steingrímur tók til máls um þá yfirlýsingu utanríkisráðherra að hann hyggðist breyta að einhverju leyti orðalaginu í tillögu sinni.
„Þá finnst mér nú að hæstvirtur utanríkisráðherra slyppi vel ef hann vandaði sig við að hreinsa út úr greinargerðinni allt sem felur í sér einhvern áburð eða gildishlaðið orðalag um aðra þingmenn og slyppi þá kannski með svona létta afsökunarbeiðni,“ sagði Steingrímur undir lok ræðu sinnar.
„Ég hef þó ekki logið að þinginu eins og þú,“ heyrðist þá greinilega í Gunnari Braga.
Viðbrögð þingmanna stóðu ekki á sér en fjölmargir heyrðust kalla „vítavert“ að forseta Alþingis.
Svo fór að Gunnar Bragi steig upp í pontu nokkru síðar og baðst afsökunar á framíkallinu.
„Mér þykir miður ef ég hef vegið að þingmanninum og biðst afsökunar.“
Í myndskeiði með fréttinni má hlusta á erindi Steingríms og ummæli Gunnars Braga.