Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hefur varað Bandaríkjamenn við að samþykkja refsiaðgerðir gegn Rússum vegna deilunnar á Krímskaga.
Lavrov átti samtal við kollega sinn í Bandaríkjunum, John Kerry, í nótt. Þar ítrekaði Lavrov að viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi muni koma niður á Bandaríkjunum.
Hermenn hliðhollir Rússum ráða nú lögum og lofum á Krímskaga. Enn sem komið er að hafa átök milli Úkraínumanna og hersveitanna verið minniháttar, engu að síður er mikil spenna á skaganum.
Þing Krímhéraðs hefur tilkynnt að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla sextánda mars um hvort að Krímskagi segi skilið Úkraínu og verði innlimað í Rússland. Nýskipuð stjórnvöld í Kænugarð hafa ítrekað að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir slíkri kosningu.
