Réttarhöldin yfir Pistorius hófust í dag en dómtökunni var seinkað um 90 mínútur í morgun.
Seinkunin var rakin til vandamála með túlka réttarhaldana en þau fara bæði fram á ensku og afríkans.
Fjölskyldur þeirra Pistorius og Steenkamp sitja sitt hvorum megin við gang fundarsalarins en hafa ekki virt hvora aðra viðlits fram til þessa.
Búist er við því að réttarhöldin standi yfir í þrjár vikur.
Vitnisburður á fyrri stigum málsins kveður á um að Pistorius hafi skotið fjórum skotum í gegnum baðherbergishurð á heimili sínu í Pretoríu, einni höfuborga Suður Afríku, aðfaranótt Valentínusardagsins í fyrra.
Þrjú skotanna hæfðu Steenkamp en verjendur Oscars Pistorius halda því fram að dauði hennar hafi verið hræðilegt slys en saksóknarar hafa ekki fallist á þá útskýringu.
Kallað hefur verið til á annað hundrað vitna við rannsókn málsins.
Eitt þeirra sagði í réttarsal í dag að lengra hafi verið á milli fyrsta og annars skotsins en þeirra sem á eftir fylgdu.
Annað vitni segist hafa vaknað við ógnvænleg öskur, fyrst frá konu og svo karli skömmu síðar.
Dauðarefsingar eru ólöglegar í Suður Afríku en Pistorius gæti átt yfir höfði sér 25 ára fangelsi.
Oscar Pistorius hlaut heimsfrægð fyrir afrek sín í íþróttum en hann tók þátt í Ólympíuleikunum árið 2012 þrátt fyrir að báðir fætur hans væru fjarlægðir þegar hann var barn. Málið hefur vakið mikla athygli og meðal annars hefur ný sjónvarpsstöð farið í loftið í Suður-Afríku sem ætlað er að sýna beint frá og fjalla um réttarhöldin.
Hér að neðan má fylgjast með réttarhöldunum í beinni útsendingu.