Handbolti

Grænlendingar að koma aftur upp í handboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angutimmarik Kreutzmann.
Angutimmarik Kreutzmann. Vísir/Getty
Grænlenska handboltalandsliðið tryggði sér sæti í úrslitum Ameríkukeppninnar í handbolta eftir sannfærandi sigur í sínum riðli sem lauk í gær.

Grænlendingarnir unnu alla leiki sína þar á meðal 30-27 sigur á Bandaríkjamönnum í lokaleiknum sínum. Þeir höfðu áður unnið Mexíkó, Kúbú og Púertó Ríkó.

Daninn Niels Möller þjálfar grænlenska landsliðið sem keppir í úrslitum Ameríkukeppninnar í Úrúgvæ í sumar. Þrjú sæti á HM í Katar eru þar í boði.

Ellefu af fimmtán leikmönnum liðsins spila í deildinni í Grænlandi og sex voru að spila sína fyrstu landsleiki á mótinu. Frægustu leikmenn liðsins eru þeir Angutimmarik Kreutzmann og Minik Dahl Høegh sem spila báðir í Danmörku.

Niels Möller var mjög sáttur með árangurinn og taldi hann sönnun þess að grænlenskur handbolti sé á mikilli uppleið.

Grænlendingar voru síðast með á HM í handbolta árið 2007 þegar þeir enduðu 22. sæti. Besta heimsmeistarakeppnin þeirra var þó í Frakklandi árið 2001 þegar grænlenska landsliðið náði 20. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×