Norska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að lækka miðaverðið á leiki karlalandsliðsins á þessu ári en allir heimaleikir Norðmanna fara fram á Ullevaal-leikvanginum í Osló. Þetta kemur fram í norska Dagblaðinu.
Dýrustu miðarnir á leikina munu "bara" kosta 200 norskar krónur eða um 3800 íslenskar krónur en fullorðnir komast á leikinn fyrir helming þeirrar upphæðar.
Norðmenn voru í riðli með Íslandi í undankeppni HM í Brasilíu og það var langt frá því að vera uppselt á leiki liðsins enda gekk ekki vel hjá norska landsliðinu í undankeppninni. Aðra sögu var hinsvegar að segja af íslenska landsliðinu sem lék fyrir fullum Laugardalsvelli allt síðasta haust.
Ullevaal-leikvangurinn tekur 27 þúsund manns. Norðmenn spila vináttuleik á vellinum 31. maí þegar Rússar koma í heimsókn en næsta haust eru síðan heimaleikir við Ítalíu og Búlgaríu í undankeppni Em 2016.
Á árinu 2014 mun barnamiðinn á heimaleiki norska knattspyrnulandsliðsins kosta 50 norskar krónur, hundrað krónur þarf að borga fyrir lélegustu sætin á vellinum og 150 eða 200 norskar krónur fyrir betri sætin.
