Fótbolti

Bale með tvö mörk í stórsigri Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale fagnar marki í kvöld
Gareth Bale fagnar marki í kvöld Vísir/AFP
Gareth Bale skoraði tvö mörk og lagði upp eitt þegar Real Madrid vann 5-0 stórsigur á Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld og komst þar með aftur á sigurbraut með stæl. Real Madrid skoraði fjögur af mörkum sínum í seinni hálfleiknum.

Real Madrid var búið að tapa tveimur deildarleikjum í röð á innan við viku og hafði fyrir vikið dottið niður í þriðja sæti deildarinnar eftir að hafa verið lengi í toppsætinu.

Öll efstu liðin unnu sína leiki í dag og er Real Madrid því áfram þremur stigum á eftir toppliði Atlético Madrid og tveimur stigum á eftir Barcelona.  Það eru eftir sjö leikir og spennan verður mikil allt til enda leiktíðarinnar.

Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 1-0 á 15. mínútu eftir sendingu frá Gareth Bale og Ronaldo lagði síðan upp annað markið fyrir Daniel Carvajal eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Gareth Bale skoraði næstu tvö mörk en þau voru mjög ólík. Það fyrra skoraði hann af stuttu færi í tómt markið eftir frábæran undirbúning Angel di María.

Seinna markið hjá Gareth Bale kom hinsvegar eftir magnaðan sprett hans frá eigin vítateig en hann hljóp alla varnarmenn Vallecano af sér og skoraði síðan af öryggi.

Varamaðurinn Álvaro Morata skoraði fimmta markið á 78. mínútu með skoti úr teiginum etir sendingu frá  Isco sem kom líka inná sem varamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×