Innlent

Almenningur langþreyttur á áratuga spillingu

Heimir Már Pétursson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði á blaðamannafundi í Kænugarði í dag að friður og öryggi í Evrópu skiptu meira máli en þeir efnahagslegu hagsmunir sem Ísland hefur í viðskiptum við Rússa. Heimir Már og Valgarður Gíslason myndatökumaður eru í Kænugarði.

Utanríkisráðherra átti fundi með nokkrum þingmönnum á úkraníska þinginu í dag, bæði úr Héraðsflokki Janukovits fyrrverandi forseta og öðrum flokkum. Þá fundaði  hann með fulltrúum samtaka samkynhneigðra og alþjóðasamtaka sem fylgjast með spillingu ríkja og gagnsæi stjórnsýslu, Seðlabankans og utanríkisráðherra.

Síðdegis í dag hélt utanríkisráðherra blaðamannafund í fréttamannamiðstöðinni á hótel Úkraínu, steinsnar frá Maidan torgi. Á blaðamannafundinum sagði Gunnar Bragi að Íslendingar stæðu heilshugar á bakvið aðgerðir Bandaríkjana og Evrópubandalagsins og að viðskiptahagsmunir Íslendinga gagnvart Rússum yrðu að víkja ef því væri að skipta í þessu máli.

Að loknum blaðamannafundinum fór Gunnar Bragi á Maidan torg þar sem þúsundir manna komu saman í dag og lagði blóm við eina varnargirðingu mótmælenda til minningar um þá sem féllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×