Körfubolti

Lele í sigurliði í 9 af 11 leikjum sínum í úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lele Hardy.
Lele Hardy. Vísir/Daníel
Lele Hardy, bandaríski leikmaðurinn hjá kvennaliði Hauka, er með frábært sigurhlutfall í úrslitakeppni kvennakörfunnar en hún er komin í lokaúrslit í annað sinn á ferlinum.

Lele Hardy hjálpaði Haukum að sópa út Íslandsmeisturum Keflavíkur út úr undanúrslitunum í gærkvöldi og hefur þar með unnið alla þrjár seríurnar sem hún hefur komið að í úrslitakeppninni á Íslandi.

Lele Hardy var kosin besti leikmaður úrslitakeppninnar fyrir tveimur árum þegar hún varð Íslandsmeistari með Njarðvík. Njarðvíkurliðið vann þá 6 af 8 leikjum sínum og þar á meðal 3-1 sigur á Haukum í lokaúrslitunum.

Lele Hardy var með 24,0 stig, 19,8 fráköst og 3,1 stolinn bolta að meðaltali í úrslitakeppninni 2012.

Haukarnir unnu síðan alla þrjá leiki sína í undanúrslitunum á móti Keflavík þar sem Lele var með 27,0 stig, 16,3 fráköst, 4,3 stoðsendingar og 5,7 stolinn bolta að meðaltali í leik.

Lele Hardy hefur því verið í sigurliði í 9 af 11 leikjum sínum í úrslitakeppni á Íslandi en Njarðvík komst ekki í úrslitakeppnina þegar hún spilaði með liðinu í fyrra. Hardy er því með 81 prósent sigurhlutfall í úrslitakeppninni en sigurhlutfall hennar í deildarleikjunum á Íslandi er 58 prósent (47 sigrar í 81 leik).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×