Anítu Hinriksdóttur var boðið að keppa á hinu fræga Bislett-móti í Ósló en ákvað að afþakka. Mótið er hluti af Demantamótaröð Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.
Þetta kom fram í Morgunblaðinu í dag en Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari hennar, sagði að mótið passaði ekki inn í æfingaáætlun hennar.
„Við ætlum að nota mótin í júni til að keyra hana upp fyrir HM í júlí,“ sagði Gunnar Páll við Morgunblaðið en Aníta stefnir að því að toppa á HM 19 ára og yngri í Oregon.
„[Mótið í Ósló] er eiginlega bara of stórt mót til að nota það til að keyra upp,“ bætti Gunnar Páll við.
Aníta stefnir þó að því að taka þátt á EM fullorðinna sem fer fram í Zürich í ágúst og Gunnar Páll útilokar ekki að Aníta myndi taka þátt í Demantamóti síðar í sumar.
