Fótbolti

Bale hetja Real í bikar-Clásico

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale skoraði sigurmarkið.
Gareth Bale skoraði sigurmarkið. Vísir/Getty
Real Madrid varð í kvöld spænskur bikarmeistari í knattspyrnu þegar liðið vann erkifjendurnar í Barcelona, 2-1, í úrslitaleik Konungsbikarsins en leikið var á Mestalla-vellinum í Valencia.

Real-menn, sem léku án Cristiano Ronaldo, voru betri til að byrja með og tóku forystuna strax á 11. mínútu þegar Argentínumaðurinn ÁngelDi María skoraði, 1-0.

Börsungar sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik og jöfnuðu leikinn á 68. mínútu. Marc Bartra, miðvörðurinn ungi, skallaði þá knöttinn í netið eftir hornspyrnu frá vinstri, 1-1.

Gareth Bale reyndist svo hetja Real Madrid en hann skoraði sigurmarkið á 85. mínútu eftir magnaðan sprett frá sínum eigin vallarhelmingi.

Hann stakk Bartra af á sprettinum og komst alla leið inn á markteig þar sem hann renndi knettinum undir Pinto í marki Barcelona, 2-1.

Brasilíumaðurinn Neymar fékk dauðafæri til að jafna metin á 90. mínútu en skot hans einn á móti markverði small í stönginni.

Real Madrid er enn í baráttunni um tvo titla til viðbótar en eftir tapið gegn Granada um helgina lítur út fyrir að tímabilið verði titlalaust hjá Barcelona.

Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×