Fótbolti

Martino, þjálfari Barcelona: Ég hef ekki staðið mig nógu vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona.
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona. Vísir/AP
Gerardo Martino, þjálfari Barcelona, viðurkennir fúslega að hann sé ekki ánægður með sína frammistöðu á leiktíðinni en Börsungar eru á góðri leið með að vinna engan alvöru titil á tímabilinu.

Barcelona mætir Athletic Bilbao á heimavelli í kvöld en Börsungar hafa tapað þremur síðustu leikjum sínum í öllum keppnum og eru sjö stigum á eftir toppliði Atletico Madrid þegar aðeins fimm umferðir eru eftir.

„Þetta er lið sem er vant því að vinna og þeir vinna alltaf einhvern titil. Fyrir utan spænska súper-bikarinn sem við unnum að því virðist fyrir óralöngu þá get ég ekki verið ánægður með að vinna ekki Meistaradeildina eða spænska bikarinn auk þess að eiga bara pínulítinn möguleika á spænska titlinum," sagði Gerardo Martino sem tók við liðinu síðasta sumar.

„Við höfum lent í stórum áföllum á síðustu sjö dögum en lið geta alltaf misstigið sig en nú er skylda okkar að berjast til lokaflautsins. Við höfum reynsluna til að átta okkur á því að við eigum enn möguleika á titlinum," sagði Martino en það bendir allt til þess að lokaspretturinn í deildinni verði hans svanasöngur á Nývangi.

„Það eru nánast svik við leikmennina að vera að pæla í því hver þjálfar liðið á næsta tímabili þegar við höfum ekki klárað þetta tímabil. Við verðum bara að standa upp og klára þetta tímabil og sjá svo til með framhaldið," sagði Martino.

Leikur Barcelona og Athletic Bilbao verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×