Liðsstjóri Red Bull, Christian Horner gerir ekki ráð fyrir breytingum á ökumannsskipan liðsins á næsta tímabili.
Sebastian Vettel þarf líklega ekki að sanna getu sína fyrir Red Bull, enda fjórfaldur heimsmeistari með liðinu. Nýji maðurinn í liðinu, Daniel Ricciardo, hefur hins vegar þurft að sanna að hann sé verðugur þess að keyra fyrir Red Bull.
Horner segir að Ricciardo hafi gert nóg í fyrstu fimm keppnum tímabilsins til að sanna hæfileika sína.
„Ég get ekki hrósað því nógu mikið sem Daniel hefur gert í fyrstu fimm keppnunum. Hann hefur unnið svo vel í ár og hann er svo rólegur í bílnum. Hann heldur áfram að hrífa okkur með hraðanum og nálgun sinni,“ sagði Horner um Ástralann unga.
„Hann nýtur þess sem hann gerir, og þú sérð hann aldrei án þess að hann sé brosandi. Það er gaman að hafa hann í liðinu, og ökumennirnir tveir eru að vinna einstaklega vel saman,“ sagði Horner.
„Við höfum alltaf trúað á stöðugleika. Daniel er með langtíma samning við liðið og það er afar ólíklegt að hann verði einhversstaðar annars staðar á næsta ári - nema auðvitað ef Ferrari er á eftir honum líka,“ sagði Horner að lokum og gerir grín að tilraun Ferrari til að ná í yfirhönnuð Red Bull, Adrian Newey.
