Með hækkandi sól fyllast sundlaugarnar af fáklæddu fólki og þá fara þá einhverjir að huga að snyrtingu líkamshára, sérstaklega kynfærahára. Kynfærakrullurnar virðast fara fyrir brjóstið á mörgum og nýja normið virðist vera hárlaus kynfæri.
Cameron Diaz gaf nýleg út bók um líkamann og þar lýsti hún því yfir að kynfærakrullur væru málið! Fleiri frægar konur, eins og Lady Gaga, Gwyneth Paltrow, og Janeane Garofalo styðja óáreittan kynfærabrúsk. Meira að segja fatamerkið American Apparel tekur í sama streng og leyfir sínum gínum að skarta brúsk.
Mér þykir umræðan um kynfærahár ákaflega áhugaverð en ég verð að játa að mér þykir þreytandi þegar það verður einhver regla að allir þurfi að vera eins. Fólk hefur ýmsar ástæður fyrir því að fjarlægja líkamshár og mér finnst að það ætti að vera persónulegt val hvers og eins. Sögulega séð þá fylgja líkamshár tískubylgjum eins og hvað annað. Þá þjóna kynfærahár ákveðnum tilgangi, eins og að vernda kynfærasvæðið gegn núningi og sumum sýkingum.
En það eru ekki bara kynfærahár sem ég pæli í því hár undir höndum, sérstaklega á konum geta einnig valdið titringi og ég skil það ekki. Af hverju pælum við svona mikið í hárvexti annarra?
Mér þætti gaman ef hárvöxtur væri allskonar, allt undir hentugleika hvers og eins og svo kæmi hann öðrum ekkert við, ætli það verði einhver tíma að veruleika?
