Gerard Pique verður áfram í herbúðum Barcelona næstu árin en hann skrifaði undir nýjan samning í dag.
Gamli samningurinn átti að renna út á næsta ári en Barcelona staðfesti í dag að hinn 27 ára gamli varnarmaður hefði samþykkt framlengingu.
Það hefur verið nóg að gera á skrifstofunni hjá Barcelona en í gær skrifaði Lionel Messi undir nýjan samning auk þess sem Luis Enrique var ráðinn knattspyrnustjóri í stað Tata Martino.
Pique er uppalinn hjá Barcelona en fór sem táningur til Manchester United. Hann sneri svo aftur til Spánar árið 2008 og hefur verið lykilmaður síðan þá.
Hann á að baki 266 leiki með félaginu og hefur unnið fjóra Spánarmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og Meistaradeildina tvívegis.
