Sjö íslenskir keppendur gerðu gott mót á norðurlandameistaramótinu í ólympískum lyftingum í Vigerstad í Noregi í gær. Anna Hulda Ólafsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði í 58 kg. flokki.
Alls komust fimm íslenskir keppendur á verðlaunapall og 9 Íslandsmet féllu.
Anna Hulda lyfti 76 kg. í snörun og 90 kg. í jafnhendingu sem gerir 166 kg. í samanlögðu en allt eru þetta Íslandsmet.
Í 69 kg. flokki vann Katrín Tanja Davíðsdóttir silfri og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir brons.
Björk Óðinsdóttir fékk brons í 63 kg. flokki en hún þríbætti Íslandsmetið í jafnhendingu og samanlöðgu. Björk lyfti 70 kg. í snörun og 102 kg. í jafnhendingu og varð þar með fyrsta íslenska konan til jafnhenda yfir 100 kg. Þuríður Erla Helgadóttir lenti í fjórða sæti í þessum flokki með 163 kg. samanlagt.
Gísli Kristjánsson vann brons í 105+ kg. flokki. Hann lyfti 145 kg. í snörun og 160 kg. í jafnhendingu.
Björgvin Karl Guðmundsson keppti í 85 kg. flokki. Hann snaraði 116 kg. og jafnhenti 141 kg.

