Sigurður Ingi Þórðarson, einnig þekktur sem Siggi hakkari, er sakaður um að hafa svikið út fjölda lúxusbíla af sjö bilaleigum frá febrúar 2012 til júlí 2013. Sigurður er sakaður um að hafa svikið út notkun á bílunum og stofnað til reikningsviðskipta við bílaleigurnar meðal annars í gegnum eitt fyrirtæki sem hann á að hafa sölsað undir sig.
Málið á hendur Sigurðar verður þingfest á morgun.
Hann er sakaður um að hafa svikið út notkun á lúxusbílum á borð við Land Cruiser 150, Audi A6, Volvo XC90 og Ford Explorer. Allir bílarnir voru nýir þegar meint svik áttu sér stað.
Viðskiptin ólöglegu sem Sigurður er á að hafa stundað við bílaleigurnar sjö nema rúmum tíu milljónum króna. Mest á hann að hafa svikið út rúmar þrjár milljónir frá einni bílaleigunni. Sigurður er einnig sakaður um að hafa svikið út rúma milljón í eldsneyti. Þar að auki er hann sakaður um að hafa svikið út bílaþvott upp á tæpar tvö hundurð þúsund krónur á tæplega tveggja mánaða tímabili.
Þóttist kaupa útgáfufyrirtæki
Meint þýfi og svik Sigurðar eru metin á rúmar þrjátíu milljónir. Hann er sakaður um að hafa sölsað undir sig útgáfufyrirtæki með því að blekkja eiganda fyrirtækisins árið 2013. Strax í kjölfarið fjölgaði meintum svikum mikið.
Í ákærunni er Sigurður sakaður um að hafa þóst ætla að kaupa útgáfufyrirtækið og falsa reikningsyfirlit og millifærslur og þannig gabbað eiganda fyrirtækisins. Sigurður varð með því prókúruhafi fyrirtækisins og stofnaði til reikningsviðskipta við fjölda annarra fyrirtækja, án þess að greiða fyrir þeirra þjónustu.
Sigurður notaði einnig nafn annars fyrirtækis til þess að stofna til reikningsviðskipta víða, árið 2012.
Stærsta einstaka krafa ákærunnar á hendur Sigurðar er frá Wikileaks. Honum er þar gert að sök að hafa þóst vera Julian Assange, stofnandi Wikileaks, og að hafa þannig fengið forstjóra vefverslunar til að millifæra 6,7 milljónir á bankareikninga sína. Fénu var ætlað að renna inn á reikning Wikileaks og átti að ráðstafa þeim til verkefna á vegum samtakanna. Sigurður starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks, en nýtti hann peningana í eigin þágu.
Sigurður var í fyrra dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára pilti. Í kjölfarið var hann hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um kynferðisbrot gegn fleiri piltum.