Erlent

Göngubrú lokað vegna ástarlása

Randver Kári Randversson skrifar
Pont des Arts brúin í París.
Pont des Arts brúin í París. Vísir/AFP
Göngubrúin Pont des Arts yfir ána Signu í París var lokuð í nokkrar klukkustundir á sunnudag vegna þess að 2,4 metra langt járnhandrið hlaðið svokölluðum ástarlásum hrundi fyrir gangveginn. Reuters segir frá þessu.

Hengilásar með nöfnum ástfanginna para fóru að birtast á brúm í París og fleiri borgum í Evrópu fyrir um fimm árum síðan. Með þessu vilja ástfangnir Evrópubúar sýna einskonar tákn um styrkleika ástarsambanda sinna. Lyklunum að lásnum er oftast hent í ána.

Engum varð meint vegna atviksins á sunnudag og opnaði brúin aftur í gær þegar búið var að skipta járnhandriðinu út fyrir viðarplanka en atvikið sýnir þó þann vanda sem þetta uppátæki er farið að valda. Handrið fjölmargra brúa í París eru nú nánast þakin slíkum ástarlásum, sem veldur því að mörg handrið er ekki talin lengur örugg vegna þess mikla þunga sem lásarnir leggja á þau.

Borgaryfirvöld í París hafa mælst til þess að fólk leiti annarra leiða til að tjá ást sína hvort á öðru en hafa ekki gripið til neinna íþyngjandi aðgerða af ótta við að spilla orðspori Parísar sem borgar ástarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×