Eykon Energy hefur dregið til baka umsókn sína um að fá viðurkenningu sem sérleyfishafi á norska landgrunninu. Norski olíunetmiðillinn Offshore greinir frá þessu í dag undir fyrirsögninni „Islendingene dropper norsk sokkel“. Þetta er sagt koma fram í bréfi Eykons til olíu- og orkumálaráðuneytis Noregs. Þar segi Eykon að ástæðan sé breyttar áherslur.
Gunnlaugur Jónsson, forstjóri Eykons, sagði í samtali við Vísi í dag að fyrirtækið ætli að einbeita sér að íslenska Drekasvæðinu og vilji ekki dreifa kröftunum. Því sé þó haldið opnu að fara síðar í olíuleit í Noregi.
Í fréttum Stöðvar 2 fyrir hálfum mánuði kom fram að samstarfsfélag Eykons á Drekasvæðinu, kínverska félagið CNOOC, hefði kynnt verkáætlun um að hefja boranir þar mun fyrr en áður var gert ráð fyrir, eða eftir fjögur ár. Þá væri unnið að því að fá rannsóknarskip á svæðið strax í sumar til að hefja hljóðbylgjumælingar.