Arsenal hefur nánast gengið frá kaupum á Alexis Sanchez frá Barcelona. Sílemaðurinn mun skrifa undir fjögurra ára samning við Lundúnarfélagið samkvæmt fjölmiðlum ytra.
BBC greinir frá því að félögin séu sammála um kaupverð og að Sanchez sjálfur hafi samið um kaup og kjör. Það virðist því fátt geta komið í veg fyrir félagaskiptin úr þessu.
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum greiddi Arsenal 27,5 milljónir punda fyrir Sanchez eða um 5,3 milljarða króna. Um 460 milljónir króna gætu bæst við þá upphæð ef Sanchez uppfyllir ákveðin skilyrði á samningstímanum.
Hann var einnig orðaður við Juventus og AC Milan á Ítalíu en hann kom til Barcelona frá Udinese árið 2011.
Talið er að þessi sala geri Barcelona kleift að ganga frá kaupunum á sóknarmanninum Luis Suarez frá Liverpool.
Sanchez búinn að semja við Arsenal

Tengdar fréttir

Sanchez á leið til Arsenal?
Spænska dagblaðið Sport fullyrðir að Alexis Sanchez sé á leið til Arsenal.