Fótbolti

Vonandi horfir Suarez á seinni leik KR gegn Celtic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
KR-ingurinn Gonzalo Balbi segir að hann hafi hringt og leitað ráða hjá mági sínum, Luis Suarez, fyrir leik liðsins gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar í vikunni.

Suarez er bróðir Sofiu, eiginkonu Suarez, en á sjálfur íslenska unnustu. „Ég talaði við Luis fyrir leikinn gegn Celtic og ég tala mikið við hann. Ég hef þekkt hann síðan ég var fimmtán ára gamall,“ var haft eftir Balbi í breskum fjölmiðlum.

Celtic vann fyrri leikinn á KR-velli, 1-0, en liðin mætast í Skotlandi á þriðjudagskvöld. „Hann komst ekki á leikinn þar sem hann er að ganga frá sínum málum í Barcelona. Hann hefur mikilvægari hnöppum að hneppa,“ sagði Balbi en Suarez var sem kunnugt er seldur frá Liverpool til Barcelona í síðustu viku.

Suarez komst í heimsfréttirnar í síðasta mánuði eftir að hann beit í öxl Giorgio Chiellini, leikmann Ítalíu, á HM í Brasilíu.

„Luis er frábær. Ímynd hans er slæm eftir HM en þannig er hann alls ekki. Hann er virkilega indæll og vill gera allt til að hjálpa manni. Maður verður að vera náinn Luis til að þekkja hann og ég er þakklátur fyrir það.“

„Hann er fjölskyldumaður. Ég hef þekkt hann síðan við vorum krakkar og séð hann vaxa og dafna sem leikmaður. Hann er einn sá besti í heimi en trúið mér - hann hefur þurft að berjast fyrir sínu.“

„Hann hefur haft mikil áhrif á mig og er alltaf að gefa mér góð ráð. Kannski horfir hann á síðari leikinn gegn Celtic í sjónvarpinu. Ég vona það.“

Balbi segir að það verði erfitt fyrir KR-inga að slá Celtic úr leik en að þeir ætli að gera sitt besta. „Ég myndi gjarnan vilja komast á sama stall í knattspyrnunni og Luis. En ég veit hversu erfitt það er og það sýndi sig í leiknum gegn Celtic hversu stórt stökkið er upp í Meistaradeildina.“


Tengdar fréttir

Sjáðu markið sem felldi KR

KR tapaði naumlega, 0-1, gegn skoska stórliðinu Celtic í kvöld en sigurmark gestanna var ekki það flottasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×