Hilmar Örn Jónsson, sleggjukastarinn efnilegi, komst í úrslit á HM ungmenna 19 ára og yngri í Eugene í Bandaríkjunum í dag, en hann kastaði sleggjunni 76,03 metra í undanúrslitum.
Fyrsta kast Hilmars var ógilt en annað kastið 76,03 metrar sem fyrr segir. Hann á best 76,51 metra með 6kg sleggju sem keppt er með í þessum aldursflokki.
Lágmarkið inn í úrslit var 74,50 metrar þannig Hilmar Örn komst auðveldlega í úrslitin sem fara fram klukkan eitt eftir miðnætti aðfaranótt laugardags. Þar er Hilmar til alls líklegur.
