Sport

Þrír EM-farar hita upp í 49. Bikarkeppni FRÍ um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir ætlar að hjálpa ÍR að verja Bikarmeistaratitilinn.
Aníta Hinriksdóttir ætlar að hjálpa ÍR að verja Bikarmeistaratitilinn. Vísir/Daníel
Bikarkeppni FRÍ fer fram í dag og á morgun en fimm lið eru skráð til leiks í 49. bikarkeppnina. Meðal keppenda eru þrír væntanlegir þátttakendur á EM í Zurich í Sviss sem fer fram í næstu viku. Þetta kemur fram á heimasíðu FRÍ.

Liðin sem eru skráð til keppni að þessu sinni eru Ármann, Breiðablik, FH, ÍR og sameiginlegt lið Norðurlands.

Á síðasta ári vann ÍR bæði kvenna- og karlakeppnina sem og sameiginlegu keppnina líka. FH varð í öðru sæti, 8,5 stigi á eftir ÍR. Mjótt var á munum í kvennakeppninni í fyrra og í karlakeppninni líka, svo ljóst er að ekkert verður gefið eftir í að þessu sinni heldur.

Búast má við mikilli keppni í einstökum greinum, enda skipta sætin máli þegar upp verður staðið. Meðal keppenda verða allir keppendur sem nýkomnir eru af HM 19 ára og yngri, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Aníta Hinriksdóttir, Kolbeinn Höður Gunnarsson, Sindri Hrafn Guðmundsson og Hilmar Örn Jónsson.

Til viðbótar Anítu eru aðrir EM farar skráðir til leiks, þau Hafdís Sigurðardóttir og Guðmundur Sverrisson. Ásdís Hjálmsdóttir er búsett í Sviss og Kári Steinn er að búa sig fyrir keppni í maraþonhlaupi.

Keppni hefst kl. 18 í kvöld og klukkan 11 á morgun, laugardag. Keppni lýkur á laugardag um kl.14:40 á má búast við að nýir bikarmeistarar verði krýndir strax í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×