Íslensku strákarnir hafa staðið sig frábærlega í þeim þremur leikjum sem eru búnir i undankeppninni, en Ísland á einn leik eftir - gegn Bosníu í Laugardalshöllinni 27. ágúst.
Sé litið yfir tölfræðina í undankeppninni kemur í ljós að Hlynur Bæringsson, miðherji íslenska liðsins, hefur tekið flest fráköst allra að meðaltali í leik, eða 11 talsins. Næstur kemur Makedóníumaðurinn Venard Hendriks með 10,5 fráköst að meðaltali í leik.
Hlynur, sem leikur með Sundsvall Dragons í Svíþjóð, tók 15 fráköst í leiknum gegn Bretlandi í Laugardalshöll, fimm í útileiknum gegn Bosníu og 13 í leiknum í gær. Hlynur er í 3. sæti yfir flest varnarfráköst í leik (7,3) og 4. sæti yfir flest sóknarfráköst (3,7).
Pavel Ermolinskij hefur einnig gert það gott, en hann hefur gefið flestar stoðsendingar að meðaltali í leik, eða 8 talsins. Ísraelsmaðurinn Cal Mekel hefur gefið næstflestar stoðsendingar, eða 7,3 að meðaltali í leik.
Pavel, sem lék ekki með gegn Bosníu vegna meiðsla, gaf 14 stoðsendingar gegn Bretlandi í Höllinni og tvær í Koparkassanum í London í gær.
Pavel hefur einnig leikið næstflestar mínútur að meðaltali í leik (37,5) í undankeppninni. Aðeins Georgíumaðurinn George Tsintsadze leikur fleiri mínútur að meðaltali í leik, eða 39,8, en hver leikur stendur yfir í 40 mínútur.
Bosníumaðurinn Mirza Teletovic er með flest stig að meðaltali í leik í undankeppninni, eða 27. Teletovic, sem leikur með Brooklyn Nets í NBA-deildinni, skoraði 25 stig í 13 stiga sigri Bosníu á Bretlandi og 29 stig gegn Íslandi í Tulza.
Alessandro Gentile frá Ítalíu kemur næstur með 18,5 að meðaltali í leik og þar á eftir koma Omri Casspi frá Ísrael og Georgíumaðurinn Zaza Pachulia, en þeir hafa báðir skorað 18,3 stig að meðaltali í leik í undankeppninni.
Logi Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson eru í 31.-32. sæti yfir stigahæstu leikmenn undankeppninnar, en þeir hafa báðir skorað 12,3 stig að meðaltali í leik.
