„Þegar öskjur eru farnar að síga þá verðum við að reikna með þeim möguleika að það gæti komið verulegt gos. Stærra en það sem við höfum séð á síðustu áratugum. Öskjusig eru ekki algeng fyrirbæri og þeim fylgja oft veruleg eldgos.,“ segir Magnús Tumi.
Hann segir að hægt sé að líta á þetta á þrenna vegu. „Í fyrsta lagi að þetta sig hætti fljótlega og gosið í Holuhrauni fjari út. Í öðru lagi að sigið verði töluvert mikið, nokkuð hundruð metrar jafnvel, og á meðan þá sigi kvikan undan Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni haldi áfram. Það er hætt við að ef svo færi þá yrði þetta verulega mikið, langvinnt gos. Nú þriðja sviðsmyndin er kannski verst. Það er að kvikan finni sér leið upp í öskjuna, öskjubrotið og gos byrji innan öskjunnar. Það gæti valdið verulegu jökulhlaupi.“
Ekkert lát er á gosinu í Holuhrauni og samkvæmt gögnum frá Ármanni Höskuldssyni eldfjallafræðingi og rannsóknarhóp hans hefur hraunið lengst um einn kílómetra síðastliðinn sólarhring, en lengdist um rúma 500 metra sólarhringinn þar á undan. Samkvæmt jarðvísindastofnun Háskóla Íslands var ekki unnt að mæla hraunjaðarinn þar sem hann liggur að Jökulsá á Fjöllum og ekki hægt að meta flatarmálsbreytingar að svo stöddu.