Tvær nýjar gossprungur hafa myndast suður af gosstöðinni í Holuhrauni, í sigdalnum um 2 km frá Dyngjujökli. Mun minni strókar eru frá nýju sprungunum en þeirri sem gosið hefur úr undanfarna daga. Gufa og gas stígur til suðausturs. Sigketillinn í Dyngjujökli virðist hafa dýpkað en engar breytingar er að sjá á Bárðarbungu. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í morgun.
Gossprungunnar varð vart um klukkan sjö í morgun og fóru vísindamenn Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands í eftirlitsflug klukkan 8:30. Mikið brennisteinstvíildi mælist í kringum gosstöðvarnar eins og í gær og þá sýna mælingar smávægilega aukningu í leiðni í Jökulsá á Fjöllum.
Dálítill órói sást á jarðskjálftamælum upp úr kl. 3 í nótt. Draga fór úr honum um 6 leytið í morgun. Töluverð virkni er í nyrðri gossprungunni (sprunga 1) og er hæðin á gufustróknum ca. 15.000 fet. Ekkert bendir til þess að gosið í Holuhrauni sé í rénun. Hraunið úr sprungu 1 rennur enn aðallega til ANA og hefur lengst síðan í gær.
Skjálftavirkni á svæðinu er svipuð og í gær. Um 170 skjálftar hafa mælst frá miðnætti. Tveir jarðskjálftar 4,4 og 5,3 mældust við Bárðarbunguöskjuna um miðnætti. Enn hefur hægst á jarðskorpuhreyfingum, mældum með GPS, og eru þær nú innan óvissumarka.
Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:
-Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
-Gangurinn nái til yfirborðs á fleiri stöðum utan jökuls. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
-Gangurinn nái til yfirborðs undir jökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
-Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum, en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.
Frá Veðurstofu Íslands: Litakóði fyrir flug er appelsínugulur fyrir Bárðarbungu og gulur fyrir Öskju.

