Innlent

Þingmálin hrúgast inn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þingmenn vilja ólmir leggja fram mál á þingi. Fæstir fá þó málin sín afgreidd.
Þingmenn vilja ólmir leggja fram mál á þingi. Fæstir fá þó málin sín afgreidd. Vísir / Stefán
Þegar hafa verið lögð fram 29 lagafrumvörp á Alþingi en aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá þingsetningu. Langflest frumvörpin, eða 28 talsins, bíða enn fyrstu umræðu. Aðeins er búið að ræða um fjárlagafrumvarpið en það er komið í nefnd.

Margir vilja álykta

Einnig er búið að leggja fram 22 þingsályktunartillögur en engin þeirra hefur verið rædd. Flest frumvörpin og ályktanirnar koma frá óbreyttum þingmönnum en erfiðlega gengur að jafnaði að koma slíkum málum í gegnum þingið. Líklega munu flest þessara mála daga uppi.

Meðal þingsályktana sem fram hafa komið er ályktun um umferðarljósamerkingar á matvæli og önnur um aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu. Einnig er búið að leggja fram ályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu fari fram.

Ekki ástæða til bjartsýni

Engin þingmannafrumvörp eru komin á dagskrá þingsins en þingfundur dagsins í dag fer í óundirbúinn fyrirspurnartíma, tvær sérstakar umræður og svo fjögur mál frá innanríkisráðherra.

Tölfræði frá síðasta vetri gefa þingmönnum ekki ástæðu til að vera bjartsýnir á að mál þeirra nái fram að ganga. Af 172 frumvörpum voru 91 samþykkt sem lög, þar af voru 74 frá ríkisstjórn, 13 frá nefndum og 4 frá þingmönnum en af 112 tillögum til þingsályktunar voru 49 samþykktar sem ályktanir Alþingis, 20 frá ríkisstjórn, 7 frá nefndum og 22 frá þingmönnum, samkvæmt upplýsingum á vef Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×