Innlent

Skipa annan starfshóp um verðtrygginguna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Nefndin skilaði tillögum um afnám verðtryggingar sem gengu út á að takmarka aðgengi að slíkum lánum.
Nefndin skilaði tillögum um afnám verðtryggingar sem gengu út á að takmarka aðgengi að slíkum lánum. Vísir / Vilhelm Gunnarsson
Skipa á starfshóp í haust til að móta tillögur um hvernig eigi að vinna úr tillögum annars starfshóps sem fjallaði um afnám verðtryggingar á síðasta ári. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var samhliða stefnuræðu forsætisráðherra í vikunni.

Afnám verðtryggingar var eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins en samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn var hóflegri í loforðum sínum um eitt umdeildasta mál þjóðarinnar. Nú liggur fyrir að ekki stendur til að banna verðtrygginguna.



Hópurinn sem þegar hefur skilað tillögum lagði til að þrengri rammi yrði settur um verðtryggð lán, meðal annars að takmarka frekar hversu löng slík lán mættu vera, en ekki að verðtryggingin yrði bönnuð með öllu. Einn nefndarmanna í verðtryggingarhópi ríkisstjórnarinnar skilaði séráliti þar sem hann vildi banna verðtryggingu neytendalána.



Í þingmálaskránni kemur fram að banna eigi lengri verðtryggð lán, eins og það er orðað. Ekki er gefin upp nákvæm tímasetning á hvenær ráðast eigi í það bann heldur segir að skipaður verði áðurnefndur starfshópur á haustönn til að móta tillögur sem fram eigi að koma á vorönn þingsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×