Sænski knattspyrnumaðurinn Albin Ekdal var maður helgarinnar í ítalska fótboltanum en hann skoraði þrennu í óvæntum 4-1 útisigri Cagliari á Internazionale Milan í 5. umferð ítölsku A-deildarinnar í fótbolta.
Inter-liðið vann 6-0 sigur á Stjörnumönnum í Evrópukeppninni á sama stað fyrr í haust en varð nú að sætta sig við skömmustulegt tap á móti liði sem hafði fyrir leikinn tapað þremur leikjum í röð og aðeins náð í eitt stig í fyrstu fjórum umferðunum.
Sænski miðjumaðurinn Albin Ekdal hafði aðeins skorað eitt mark í 77 síðustu leikjum sínum með Cagliari en skoraði þarna þrennu á fimmtán mínútna kafla.
Inter hefði getað tapað leiknum stærra en Samir Handanovic varði vítaspyrnu frá Andrea Cossu í stöðunni 1-3. Nemanja Vidic fékk á sig vítið fyrir klaufalegt brot.
Yuto Nagatomo fékk sitt annað gula spjald strax á 27. mínútu en þá var staðan 1-1. Ekdal skoraði mörkin sín á 29., 34. og 44. mínútu en hálfleiksstaðan var lokastaðan í leiknum.
Internazionale er í 5. sæti deildarinnar nú sjö stigum á eftir toppliðum Juventus og Roma sem hafa ekki tapað stigi á tímabilinu.
