Fótbolti

Ronaldo segist ekki á leið til Manchester United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er ánægður í Real Madrid.
Cristiano Ronaldo er ánægður í Real Madrid. vísir/getty
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, segist ekki vera á leið til Manchester United á ný þrátt fyrir fjölmargar fréttir um annað undanfarna daga.

Ronaldo var í herbúðum United frá 2003-2009 áður en hann var seldur til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda sem þá var langhæsta kaupverð í sögu fótboltans.

Síðan hann gekk í raðir Real Madrid hefur hann unnið spænsku deildina, spænska bikarinn, Meistaradeildina og verið kosinn leikmaður heims, en hann átti svipað góða daga á Old Trafford.

Eftir fernuna sem hann skoraði í sigri á Elche í spænsku 1. deildinni í vikunni sagðist hann fullmeðvitaður um orðróminn um hann og Manchester United, en gaf lítið fyrir þær fréttir.

„Þetta eru bara vangaveltur um framtíð mína. Framtíð mín er Real Madrid. Ég er ánægður að mér gengur vel á þessari leiktíð og með framtíðina. Ég mun ekki tala meira um þetta,“ sagði Cristiano Ronaldo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×