Innlent

Þingmaður segir dagskrá Ríkisútvarpsins misþyrmt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
"Ég spyr því hér og nú og velti fyrir mér hvort að þessi stofnun mun halda áfram að misþyrma dagskránni?“ spurði Vilhjálmur.
"Ég spyr því hér og nú og velti fyrir mér hvort að þessi stofnun mun halda áfram að misþyrma dagskránni?“ spurði Vilhjálmur. Vísir / Stefán
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að dagskrá Ríkisútvarpsins hafi verið misþyrmt að undanförnu. Vísaði hann til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á dagskránni í kjölfar ráðningar nýrra dagskrárstjóra. „Það er ýmislegt sem valdið hefur truflunum á lífi mínu á undanförnum misserum,“ sagði Vilhjálmur þegar hann hóf ræðu sína um dagskrárbreytingarnar.

„Það er nú svo komið að Ríkisútvarpið taldi það að það gæti helst orðið þjóðinni til bóta að fella niður hugleiðingu að morgni sem ég veit ekki að hafi unnið nokkrum manni sálutjón,“ sagði hann í ræðunni og bætti við að næst hafi síðasta lag fyrir fréttir verið fært framfyrir tilkynningar. „Þannig að það kemur ýmislegt á eftir, leiknar auglýsingar, sem misþyrma síðasta lagi fyrir fréttir,“ sagði hann.

„Ég spyr hér og nú: Hvaða vanda hefur síðasta lag fyrir fréttir klukkan fyrir 17 mínútur yfir tólf valdið þjóðinni?“ spurði þingmaðurinn og hélt áfram: „Ég spyr því hér og nú og velti fyrir mér hvort að þessi stofnun mun halda áfram að misþyrma dagskránni?“

Vilhjálmur gerði spilun Níundu sinfóníu Beethovens að sérstöku umtalsefni í þessu samhengi en hún hefur verið flutt á á nýársdagsmorgun. „Hún hefur valdið mér ómældri gleði og vakið mér vonir um gott nýtt ár,“ sagði hann og baðst vægðar fyrir hönd hlustenda útvarpsins. „Ég bið um það að það sé ekki verið að skaka í dagskrárliðum sem hafa unnið sér sess í langri dagskrá útvarpsins og hingað og ekki lengra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×